fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Ekki var mér farið að lítast á þegar ég var beðinn um að mæta hálf sex á morgnana í stað sex. En nú þegar ég á að mæta rétt upp úr fimm er mig farið að gruna að brátt muni ég járngervast í fiskvinnsuvél sem vinni allan sólarhringinn.

Ýmislegt bendir til þess að ég hafi ekki gefið þjóðverjanum sem er bóndi nægan gaum í byrjun. Ég hef verið að taka eftir því að hann virðist vera í sínum eigin hugarheimi á stundum. Stundum tekur hann t.d. upp á því að þykjast vera fimm ára í vinnunni, eða þá að verða ofboðslega hissa á því að sjá fisk koma út úr einhverri fiskvinnsluvélinni.
Svo sagði mér eigandi gistiheimilisins sem hann býr á að kvöld eitt þegar hann þurfti að fara og biðja þjóðverjann um aðeins snyrtilegri umgengni, þá hafi hann snarstansað við herbergisdyrnar því þar fyrir innan hafi þjóðverjinn verið að æpa ókvæðisorðum að sjálfum sér, og á þýsku auðvitað.

Bæjarferðin um síðustu helgi tengdist tónlistarprósjekti og hugsanlegri ferð til Frakklands. Meir um það síðar.

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

Björninn á heygrindinni

Björn hafði eitt sinn lagzt í híði í útihlöðu á prófastssetri. Að vetrarlagi sendi prófasturinn vinnumann sinn til hlöðunnar, og er hann kom að henni, sneri hann hestinum við hlöðudyrnar. Með heykvíslinni fór hann að moka heyinu upp á heygrindina. En í fyrsta skipti sem hann stakk kvíslinni í heyið, rak hann hana í björninn, sem hafði grafið sig niður í það. Björninn rauk upp. En þegar hann þaut út, stóð heygrindin beint fyrir framan dyrnar og björninn lenti í henni. Hesturinn var fælinn, prjónaði og hentist heimleiðis á harðastökki. Björninn varð að þrífa í grindina til að halda sér föstum og þarna stóð hann á tá fremst í grindinni, meðan hesturinn þaut áfram.
Á leiðinni mættu þeir prestinum, sem bauð góðan dag. En björninn virtist ekki taka eftir neinu, þó að presturinn héldi að hann væri prófasturinn. Prestinum þótti miður og hugsaði:
- Hvernig liggur í því, að prófasturinn skuli vera á svo mikilli ferð að þegar maður býður góðan dag tekur hann ekki undir og ekur eins og óður væri!
Rétt á eftir kom hringjarinn gangandi. Hann bauð líka góðan dag, því að hann þekkti hestinn, og hélt að þarna væri prófasturinn á ferð. En björninn svaraði ekki, lét sem minnst á sér bæra og var lafhræddur, þar sem hann stóð og hélt sér í grindina með hrömmunum.
Að lokum mættu þeir hreppstjóranum á veginum. Hann bauð og góðan dag, eins og vanalegt var, en björninn svaraði ekki, murraði bara svolítið um leið og hann þaut framhjá.
- Hvert er virðulegur prófasturinn eiginlega að fara, hugsaði hreppstjórinn furðu lostinn, - þegar hann hefur ekki tíma til að taka undir og ekur eins og hann hefði sleppt sér!
Prófasturinn var í stofu sinni, þegar hann sá hestinn renna inn í húsagarðinn. Hann hélt að það væri landshöfðinginn og furðaði sig á, hvar vinnumaðurinn hefði tekið hann upp. Prófasturinn þaut út til að taka á móti gestinum. Hann hneigði sig og bauð góðan dag. Björninn þóttist ekki einu sinni heyra og stóð þarna hálf vitstola af hræðslu. Prófasturinn hneigði sig svo lengi fyrir landshöfðingjanum að vinnumanni hans þótti nóg um og sagði:
- Þetta er björn!
Og svona lék björninn á alla höfðingjana í þetta skiptið. Þeir héldu hann vera landshöfðingja og prófast, og að lokum var hann björn, björn eins og hann líka var.
( Finnsk Ævintýri;
útg. Prentsmiðjan Leiftur hf,
Reykjavík 1977)

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Enn er til ein manneskjan í peningabúinu sem ég verð að hafa orð um. Lengi hef ég samt forðast það, sökum þess að þessi karl hræðir mig. Nafn hans er Ívar, og á vel við að kalla hann Ívar grimma. Karl þessi er hvatvísasti maður sem ég hefi fyrir hitt, og einnig sá stressaðasti. Mér var sögð saga sem nú kemur:
Því er þannig háttað að Ívar grimmi á sér tvíburabróður ( sem eðli málsins samkvæmt hlítur að vera verulega góð manneskja) og voru þeir tveir við þriðja mann í byggingarvinnu. Höfðu þeir, einn vetrardag, verið ofan á húsþaki að sinna skildum sínum. Þegar verki þeirra lýkur, síðla dagsins, tekur þriðji maðurinn sig til við að hoppa ofan af þakinu í snjóskafl. Hann hefur myndarlegt tilhlaup, sem vekur forvitni hvatvísu tvíburabræðranna svo að hvor í sínu lagi ákveða þeir undir eins að slást með í för fram af þaki. En þegar brúninni sleppir kemur í ljós að skaflinn fyrir neðan er enginn, nema beint fyrir neðan þann þriðja - enda hafði hann mokað hann sjálfur.

Bæjarferð á morgun! HÚRRA fyrir bæjarferð! HÚRRA - HÚRRA - HÚRRA!!!

laugardagur, febrúar 12, 2005

Vinnan hófst klukkan 6 á laugardegi. Og með þeim degi jókst grunur minn enn um að ég heiti í raun Gúdmúndúr, og að foreldrar mínir hafi bara verið að stríða mér þegar þau kölluðu mig Guðmund.
Með nýjum vinnudegi koma ný hlöss af fiski fyrir mig að ferja. Út úr kælinum bruna ég, eins og kallinn á mjólkurbílnum, og sturta öllu heila klabbinu í afhausun, þar sem standa pólsk kerla, komin á ár, og þjóðverji sem seint þreytist á því að segja mér að hann sé í raun bóndi. Frá afhausun fer það svo í flatningu, hjá bretanum Gary sem kom Hvergilands í ævintýraleit ásamt finnskri kærustu sinni. En hún er þarna, alveg að sofna við það snyrta og hreinsa nýflött hræin ásamt öðrum úr evrópuráði. Á enda þessa færibands stendur svo strákur sem á óhugnanlegan hátt er lifandi eftirmynd Gassa gæsar í andabæ (þessi lati sem býr hjá Ömmu önd), og hann kastar flötum fisklíkunum í kar og saltar.

Meir um framleiðslu saltfisks er mér um megn að skrifa í frítímanum. Það er nefninlega komin helgi og ég má ráða mér sjálfur til klukkan 6 á mánudag.

Úr lausu lofti:
- ,,are you listening to hard rock?"
- ,,no,...punk metal"

mánudagur, febrúar 07, 2005

Í vinnunni geri ég sem mest ég má af því að hlusta á Rás 1. Einhvern veginn finnst mér að það eigi að hlusta á Rás 1 þegar unnið er í fiski. Morgunvaktin heldur manni flínkum með fréttaskýringum (svo ég ætti að hætta hlusta á hana). Og Hlaupanótan kennir manni að meta góða tónlist. Svo ekki sé mynnst á það að hlusta á veðurfréttir frá Veðurstofu um leið og hlass af fiski er ferjað frá A til B.
Þó er helst til að það gerist að ég skipti Auðlindinni út fyrir Poppland. Ég veit vel að Auðlindinn er þáttur fyrir fiskifólk, svo að ef Rás 1 á vel við fiskvinnu þá hlýtur Auðlindin að vera alger skilda. Ég er bara líklega ekki tilbúinn til að stíga skrefið til fulls. Ég vil trúa því að ég eigi afturkvæmt. Allavegana fyrst um sinn.

Útborgaðar 47.301kr. Ætli það sé ekki ágætt fyrir viku og dag (og laugardag og yfirvinnu).


fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Rögnvaldur er ágætiskarl, fyrir utan sullið í tönnunum á honum. Sullið gerir hann með því að láta gervitennurnar leika lausar um kjaftinn.
Hugsanlega tónlistarprósjekt og ferð til Frakklands. Meir af því síðar.
Pólskar konur tala óhemju mikið. Lífið hjá þeim hlýtur að vera viðburðameira en okkar íslendinga. Þær eru enn að hlæja að klaufaskapnum í mér. En svona ef ég spuglera í því, þá virðast þær hlæja að nærri öllu. Húmorinn þeirra er á svo skrýtnu plani að ég held að hann sé barasta alveg frábær. Og þegar þær hlæja að mér held ég að þær séu að segja að þeim þyki vænt um mig.
Annars er ég nokkuð viss um að þær hafi verið að tala um mig í mötuneytinu. Ein þeirra benti á mig, og ég þekkti orðin ,, ... tak spakoj", (... svo rólegur). Þá sat ég einn við borð og skrifaði þetta.