mánudagur, janúar 31, 2005

Sjálfsmynd mína hef ég verið að reyna sjá úr augum annarra. Samkvæmt vinum mínum er annars vegar erfitt að sjá mig fyrir sér á hjóli, sem þýðir að ég hjóla ekki, og hins vegar ef það væri spunnið upp samfélag bara með vinahópi okkar þá fengi ég hlutverk kaupmannsins. Ég er kapitalisti! Nú þegar er ég farinn að tortryggja sjálfan mig, því í mínum huga finnst mér gaman að hjóla og ég fyrirlít fólk sem selur. ( Hugmyndir sem endurspegla sjálfsmynd mína eru vel þegnar í comments-dálkinn).

Nóg af tilvistarkreppu.
Ég ætlaði að hætta vera flínkur. Þá verð ég að setja stassetningarvillu hér inn.

Setningar sem ég hef gripið úr lausu lofti í vinnunni:
,,klukkan á veggnum er tvem mínútum of sein miðað við klukkuna í útvarpinu"
,,all my jokes come from silly cartoons"
,,hope is the last thing to go"

sunnudagur, janúar 30, 2005

Ég kláraði um daginn bók, eftir norðmanninn Erlend Loe, um mann sem fer í fýlu út í samfélagið og flyst út í skóg með tjald. Honum finnst fólk gera of mikið úr því að vanda sig, og vera flínkt. Ég er nokkurn vegin að komast á þá skoðun að þetta sé rétt hjá honum. Við reynum fram úr hófi að vera góð í öllu sem við gerum. Sum fyrirtæki gera t.d. út á þetta með því að velja starfsmann mánaðarins. Við reynum að vita allt um það sem er að gerast í veröldinni, til þess eins að geta slegið um okkur í fárra vina hópi. Hégómi. (Ég er hættur að fylgjast með!). Við notum gömul og skrítin orð þegar við tölum, til þess að við séum álitin gáfuð og flínk. (Ég er hættur að tala!). Og við sönkum að okkur alls kyns fyrirferðamiklu drasli, til þess að fólk sjái hvað við erum vel stæð og því flínk. (Ég er hættur að kaupa!).

Ég fékk sessunaut í mötuneytinu. Hann heitir Rögnvaldur, og ég held að hann hafi leikið í Bangsa Bestaskinn.

föstudagur, janúar 28, 2005

Það kom til mín lítill og skrítinn karl um sextugt. Hann gerði tilraun til að spjalla. Hann spurði hvort ég kæmi úr bænum og þess háttar.Hann virkaði óöruggur og starði mikið á gólfið. Eftir um smá stund sagðist hann kannast svolítið við stígvélin sem ég hafði á mér. Hann sagðist eiga þau. Ég bar af mér allar sakir, sagði honum að verkstýran hefði klætt mig upp með alls kyns samtíningi úr fatageymslunni. Næsta dag kom aftur til mín sami karl. Þá sagði hann mér að, ef ég vildi, þá mætti ég kaupa af honum sígvélin á hálfvirði. Því ef ég léti verkstýruna panta fyrir mig stígvél kostuðu þau 5000kr. Hugsandi um aurinn sló ég til, enda um reifarakaup að ræða. En svona eftir á get ég ekki varist tilhugsuninni um að ég hafi verið hafður að fífli.

Af öðru, þá braut ég smá stykki úr vinnustaðnum með því að keyra beint á vegg.

miðvikudagur, janúar 26, 2005

Ég var að hugsa um að opna blogg og kalla það gaffaltrukkur. Eins konar forvarnarblogg. Svona svo að aðrir íslendingar sjái hvað þeir eru heppnir að þurfa ekki að sjá um verkamannastörfin sín sjálfir. Þá vonandi hættir fólk að vera fordómafullt í garð pólverjanna sem huga að fisknum okkar. Og skólakrakkar hætta kannski að væla yfir því hvað allt sé erfitt ef þeir sjá hvað bíður þeirra sem hætta í skóla.
Til þessa hef ég ákveðið að fórna sjálfum mér í nokkra mánuði. Sem íslendingur og uppgjafaskólastrákur hef ég ráðið mig í fiskvinnu. Ég keyri gaffaltrukk og læt hæða mig á útlensku fyrir klaufaskap.
Ég hef þegar unnið minn annan dag í fiski. Eina ástæða þess að ég er ekki búinn að hoppa í höfnina af Bubbablús er einfaldlega sú að ég er of þreyttur til að hugsa um slíkt. Fyrsti dagurinn varði frá 8:00 til 18:00 og sá annar frá 6:00 til 19:00, sem þýðir að fótferðartími var klukkan 5:00. Svo er unnið á laugardögum.

Sunnan stormur og hellidemba var fyrsta daginn og lak þakið í mötuneytinu á þrem stöðum. Þar á meðal á hausinn á mér.