sunnudagur, mars 20, 2005

Enn eina sögu verð ég að segja af greyinu Thomasi, þó svo að hann sé löngu farinn. En fyrir stuttu heyrði ég af honum nokkuð sem ég hafði ekki heyrt fyrr.

Þannig var það einn dag, eftir að vinnu lauk, að verkstýran átti leið fram hjá stakkageymlunni og heyrði þaðan einhver læti. Hún opnar þar hurð og stingur nefinu inn. Þar fyrir innan sér hún Thomas karlinn í hörku slag við stakkinn sinn, eða öllu heldur hékk þar stakkur hans á snaga og hann var í óða önn við að kýla úr honum "líftúruna" og bölva honum um leið. Hún spyr varfærnislega: "Are you all right?", - hann stoppar, lítur upp og segir, " Yes, I´M all right!", - en lítur svo á stakkinn, líkt og öðru máli gegni um hann.
Verkstýran dregur höfuðið aftur til baka, hallar hurðinni og gengur burtu með hljóðin af nokkrum vel völdum bóndahöggum í bakgrunni.

föstudagur, mars 18, 2005

Það hefur komið fyrir að ég hafi stolið.
Ég var 6 eða 7 ára þá. Ekkert var í veröldinni mikilvægara en kábojbyssur, og þær seldi Leikbær. Einn leikfangakassinn þar innihélt, til að mynda, tvær byssur og hvellettur. Tilvalið fyrir góða vini. Í marga daga suðaði ég um þennan kassa í pabba. Ég vissi að þessi kassi var lykillinn að velgengni í hverfinu. En alltaf var svarið það sama: Nei!
Svo var það einn morguninn að ég vaknaði fyrstur allra. Læddist fram í eldhús, klifraði upp á borð og teygði mig í veski upp á ísskáp. Þennan morgun var veskið óvenju úttroðið. Það geymdi þrjátíu þúsundkalla, í það minnsta, og kassinn minn kostaði bara einn! Verðið vissi ég upp á hár eftir ótal ferðir í Leikbæ, bara til að skoða allt og góna á kassann - 1000kr. Veskið fór aftur upp á ísskáp, örlítið léttara.
Úti á túni, fyrir framan blokkina mína, var fyrsti hverfisgemlingurinn á fætur að leik. Strákur að nafni Aron. Ég hljóp til hans og sagði honum með æðibunugangi að pabbi hefði gefið mér þúsundkall og nú ætlaði ég í Leikbæ. "Þúsundkall!?! -kreisti hann út og slóst með í för.
Í minningunni valhoppum við tveir inn í Leikbæ. Ég slengi peningum á borðið og bendi á kassann minn. Þetta var svo sannarlega dagurinn sem allt mitt líf hafið gengið út á. "Ertu alveg viss um að foreldrar þínir leyfi þér að kaupa svona dýrt dót?" - spurði konan á bak við borðið, og ég svaraði um hæl, "Auðvitað!", - stórhneikslaður á því að hún skildi efast um örlæti pabba míns, "Þau eiga helling!".
Í hjólageymslunni í blokkinni tökum við Aron upp úr kassanum, hlöðum hvellettunum í byssurnar og hlaupum út. Nú í dag grunar mig að þetta hafi í raun verið rásbyssur sem keyptum, því ekki hafði nema einu skoti verið hleypt af þegar fyrir hornið kemur askvaðandi krakkahópur, með bróður minn í fararbroddi. Krakkaskríllinn bendir á mig og beinir orðum sínum til Arons, "Hann stal pening frá pabba sínum!". Aroni greyinu verður við eins og byssa hans logi af hreinsunareldinum. Hún flýgur hátt upp í loft og lendir á túninu um það leiti sem Aron kemur sér fyrir aftast í þvögunni. Ég ligg í, að mér finnst, tíu metra djúpri holu og horfi upp til krakkanna allt í kring um mig.
Það undraðist ég þó mest að engar skammir fékk ég frá pabba. Þess í stað fékk ég að heyra yfirvegað tal um heiðarleika og gildi peninga. Byssunum fékk hann skilað.

mánudagur, mars 14, 2005

Afsakaðu þetta. Ég datt ofan í svarthol.

Af hverju ætti ég að færa sögur í dag? Konunni sem hefur álíka skæra rödd og fiskflétjarinn; hún hvíndi, "þvílík ísun, þetta er besta ísun sem ég hefi nokkurru sinni séð!", en ég heyrði það ekki, því ég hélt þetta vera flétjarann sem ég reyni að hunsa.
Eða ætti ég kannski að segja frá aumingja portúgalanum sem vildi ekkert meir en að hafa bílinn sinn tandurhreinan, svo hann hafði númeraplöturnar inn til skrúbbingar. En þegar hann svo aftur kom út hafði lögreglan tekið upp á því að sprengja grunsamlegan, númerslausan bíl sem stóð á bílastæði.

Ég ætla að líta svo á að ég sé búinn að segja frá hvoru tveggja.

miðvikudagur, mars 02, 2005

Útborgunardagur, 152.984kr. fyrir febrúar. 226klst af vinnu. Ekki sem best það.

Eitt varð ég var við í dag. Stígvélaði karlinn og annar pólskur á sviðuðu reiki eiga sérlega illa saman. Í dag urðu nokkrar stympingar þeirra á milli, líklega út af fiski. Vitanlega var mér brugðið að sjá fullorðna menn nánast í slagsmálum, en mér var sagt að slagsmál væru ekki svo ótíð á milli fiskverkafólks og þá sérstaklega á milli þessara tveggja manna. Eitt sinn hefði meir að segja orðið úr því lögreglumál. Tilhlökkunin eftir næsta vinnudegi jókst smá.
Þetta var ekki það eina í dag. Finnska kærasta bretans kom í vinnuna með annað augað fagurblátt út á kinn, og þjóðverjinn Thomas var rekinn fyrir ósiðlegt og óhugnanlegt tal til þvottakonunnar á gistiheimilinu. Ég held að fólk hafi ekki áttað sig á því að hann er bara bóndi. Stakkas Tommi.

Það hefur borið á nýjum endajaxli í kjafti mínum. Svosum ekkert söguefni, nema að því leiti að hann kom upp á hlið. Ætli það séu til læknar sem kíki á svona?